Valmynd Gerast meðlimur

Markaðsverðlaun 2014

Markaðsfyrirtæki ársins

Nova var útnefnt Markaðsfyrirtæki ársins 2014 úr hópi fimm fyrirtækja sem öll þóttu hafa skarað fram úr varðandi fagmennsku við markaðsstarfið, sýnilegan árangur í starfi og fjárhagslegt öryggi. Af þeim taldi dómnefndin Nova hafa staðið sig best og er þetta í annað sinn sem Nova hlýtur þennan heiður, en fyrirtækið var einnig útnefnt Markaðsfyrirtæki ársins 2009.
Ásamt Nova voru Íslandsbanki, Landsbankinn, Ölgerðin og Össur tilnefnd.

Í umsögn dómnefndar segir m.a.:
„Árangur Nova hefur verið eftirtektarverður en Nova er með 35% markaðshlutdeild í farsímaþjónustu á Íslandi. Á árinu 2013 hóf Nova að bjóða 4G þjónustu, fyrst íslenskra fyrirtækja og hefur sú þjónusta mælst vel fyrir hjá viðskiptavinum. Markaðsstefna Nova byggir á slagorðinu ,,Stærsti skemmtistaður í heimi". Þetta er þó ekki slagorð heldur um leið grunnur að menningu fyrirtækisins.“

Markmið fyrirtækisins eru metnaðarfull en um leið raunsæ. Nova var með ánægðustu viðskiptavinina í farsímaþjónustu 4.árið í röð, NPS var 28% og fyrirtækið metið eitt af sterkustu vörumerkjunum og var eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR árið 2014.
Dómnefnd var því sammála að veita ætti Nova viðurkenningu sem Markaðsfyrirtæki ársins 2014. 

Dómnefnd

Í dómnefnd sátu:

 • Dr. Þórhallur Guðlaugsson, dósent við Háskóla Íslands, sem jafnframt var formaður dómnefndar
 • Inga Steinunn Björgvinsdóttir, stundakennari við HR
 • Ingólfur Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri markaðssviðs Marels
 • María Hrund Marinósdóttir, markaðsstjóri VÍS og stjórnarmaður í ÍMARK
 • Magnús Árnason, markaðsstjóri OZ og stjórnarmaður í ÍMARK
 • Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Dominos
 • Ásta Pétursdóttir, framkvæmdastjóri ÍMARK

Markaðsmaður ársins

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, var valinn markaðsmaður ársins. Það var samdóma álit dómnefndar að Birna væri vel að þessum verðlaunum kominn fyrir faglegt og árangursríkt markaðsstarf. Dómnefnd taldi hana hafa sýnt fram á framúrskarandi árangur í markaðsstarfi í gegnum tíðina.


Í umsögn dómnefndar segir m.a.: 
„Birna tók við starfi bankastjóra Íslandsbanka strax eftir bankahrunið í október 2008 og er hún fyrsti einstaklingurinn með markaðsbakgrunn, sem hefur valist í starf bankastjóra á Íslandi. Birnu beið það erfiða hlutverk að byggja upp nýjan banka. Hún og samstarfsmenn hennar nálguðust þau erfiðu verkefni, sem við blöstu, lausnamiðað og með markaðshugsun að leiðarljósi, hafandi hag viðskiptavina og starfsmanna í fyrirrúmi.“ 

Dómnefnd

Í dómnefnd sátu:

 • Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, formaður dómnefndar og jafnframt Markaðsmaður ársins 2014
 • Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Capacent
 • Sigmar Vilhjálmsson, eigandi Hamborgarafabrikkunnar
 • Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
 • Dr. Friðrik Larsen lektor í HÍ og formaður stjórnar ÍMARK
 • Ásta Pétursdóttir, framkvæmdastjóri ÍMARK

  Hólmfríður Einarsdóttir, markaðsstjóri Íslandsbanka átti einnig sæti í dómnefnd en hún vék sæti vegna hagsmunatengsla.