Valmynd Gerast meðlimur

Markaðsverðlaun 2012

Markaðsfyrirtæki ársins

Íslensku markaðsverðlaunin voru afhent af forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, fimmtudaginn 8.nóvember 2012 á Hilton Reykjavík Nordica. Að þessu sinni var það Marel sem var valið Markaðsfyrirtæki ársins. 

Mjög góð aðsókn var eins og áður á þennan viðburð enda vekur afhendingin ávallt athygli í íslensku viðskiptalífi. Undanfarin 22 ár hefur ÍMARK veitt Íslensku markaðsverðlaunin þeim fyrirtækjum sem sannað þykir að hafi náð sýnilegum árangri með faglegu markaðsstarfi.

Ræðumaður dagsins var Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri Sölu- og Markaðssviðs Icelandair en Icelandair var markaðsfyrirtæki ársins 2011.  

Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Nóa Síríus og formaður dómnefndar á Markaðsmanni ársins, og Þórhallur Guðlaugsson, forstöðumaður BS í markaðsfræði og alþjóðaviðskipta við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður dómnefndar á Markaðsfyrirtæki ársins, héldu einnig erindi. Fundarstjóri var Edda Sólveig Gísladóttir, eigandi Kapall markaðsráðgjöf. 

Auk Marel voru Mjólkursamsalan og Ölgerðin tilnefnd til Íslensku Markaðsverðlauna. Þessi fyrirtæki hafa sýnt frábæran árangur hvert á sínu sviði og mjög faglegt markaðsstarf.

Verðlaunahafinn Marel er fyrirtæki sem vart þarf að kynna fyrir íslenskri þjóð þó svo að aðeins lítill hluti starfseminnar fari fram hér á landi. Mörg okkar hafa fengið tækifæri til að fylgjast með vexti og viðgangi þessa fyrirtækis en Marel starfrækir nú skrifstofur í 30 löndum og er með umboðsmenn í yfir 100 löndum.

Markaðsstefna fyrirtækisins tekur tillit til margra þátta svo sem eins og breyttrar neytendahegðunar, breytinga á neyslumynstri, þróun matvælaframleiðslu á ólíkum mörkuðum, samkeppni, þarfa viðskiptavina, hagsmuna starfsmanna og annarra hagsmunahópa.

Til að fylgja þessu eftir er Marel með 53ja manna markaðsteymi sem starfar á 25 stöðum um allan heim. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa en fyrirtækið er númer 1 á öllum helstu mörkuðum sem það starfar á. Það sem hefur hjálpað einna helst til við að ná þessum árangri er sterkt og vel skipulagt markaðsstarf fyrirtækisins. Marel er vel að þessum verðlaununum komið.  

Dómnefnd

Í dómnefnd sátu:

 • Þórhallur Guðlaugsson, dósent við HÍ og formaður dómnefndar
 • Friðrik Larsen, lektor við HR
 • Gunnar Thorberg Sigurðsson, eigandi Kapall markaðsráðgjöf
 • Guðmundur Óskarsson, forstöðumaður markaðs- og þróunarsviðs Icelandair
 • Guðrún Einarsdóttir, markaðsstjóri NOVA
 • Ninja Ómarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍMARK

Markaðsmaður ársins

Liv Bergþórsdóttir framkvæmdastjóri Nova var valinn Markaðsmaður ársins 2012.
Liv er mikil markaðsmanneskja enda hafa þrjú fyrirtæki sem hún hefur unnið hjá unnið á sama tíma til Markaðsverðlauna.

Liv hóf sitt fyrsta starf við markaðsmál eftir útskrift árið 1995 hjá Sláturfélagi Suðurlands og að hennar sögn hafi sá tími verið frábær skóli sem gaf henni gott uppeldi í markaðsmálum. Árið 1997 var SS valið Markaðsfyrirtæki ársins hjá ÍMARK.
Í byrjun árs 1998 tók Liv að sér starf markaðsstjóra hjá Íslenska farsímafélaginu, sem var þá fyrsta einkarekna farsímafyrirtækið á Íslandi. Tal varð til og Liv tók þátt i því að byggja fyrirtækið upp frá grunni. Tal náði góðum árangri á íslenskum farsímamarkaði og var valið Markaðsfyrirtæki ársins 1998 hjá ÍMARK.
Það var svo árið 2007 sem Nova var stofnað og hefur Liv verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá upphafi. Liv hefur náð að byggja upp sterka fyrirtækjamenningu hjá Nova sem er markaðshneigð og fyrirtækið hefur sterka staðfærslu á markaði. Stefna, fyrirtækjamenning og ímynd Nova eru mjög vel samstillt og heildræn. Síðastliðin 2 ár eru viðskiptavinir Nova meðal ánægðustu viðskiptavina á fjarskiptamarkaði samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni og þá er Nova í hópi fyrirmyndarfyrirtækja VR, þar sem ánægja starfsmanna er mæld. Nova var valið Markaðsfyrirtæki ársins 2009 og aftur tilnefnt til ÍMARK Markaðsverðlauna árið 2011.

Nova var þá þriðja fyrirtækið sem Liv starfaði hjá er valið var Markaðsfyrirtæki ársins. Þessar viðurkenningar eru vitnisburður um einstaklega vel heppnað og faglegt markaðsstarf.

Dómnefnd

Í dómnefnd sátu:

 • Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Capacent rannsókna
 • Gunnar Thorberg Sigurðsson, eigandi Kapall markaðsráðgjöf
 • Gunnar B. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar
 • Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Nóa Síríus og formaður dómnefndar
 • Ninja Ómarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍMARK