Valmynd Gerast meðlimur

Dómnefnd og dómnefndarstörf

Fyrst og fremst er það hlutverk dómnefndar að skila af sér niðurstöðu sem almenn sátt ríkir um innan dómnefndar. Dómnefnd hefur umtalsvert frelsi um túlkun efnisatriða og má beita ýmsum aðferðum til að komast að niðurstöðu, svo lengi sem almenn sátt dómnefndar sé þar að baki. Er það á ábyrgð formanns að tryggja að svo sé.

Í dómnefnd sitja að jafnaði 11 aðilar. Sjö aðilar skulu tilnefndir af SÍA og skal hver og einn gegna stöðunni ,,Creative Director" eða ,,Art Director". Þrír aðilar skulu tilnefndir af ÍMARK, auk formanns dómnefndar sem leiðir dómnefndarstörf og hefur ekki atkvæðisrétt. Að lokum verða tveir fulltrúar frá auglýsingastofum sem að tilheyra ekki SÍA, og skulu þeir gegna stöðu ,,Creative Director" eða ,,Art Director". 

Dæmt er í tveimur umferðum. Í fyrri umferð skal innsendingum fækkað niður í þann fjölda sem að dómnefnd telur að eigi möguleika á tilnefningu. Er það í verkahring dómnefndar að ákveða hversu margar tilnefningar skulu vera í hverjum flokki. Faglegur rökstuðningur dómnefndar skal ávallt fylgja slíkum ákvörðunum. 

Enginn víkur sæti vegna vanhæfni heldur sitja allir dómnefndarmenn inni í öllum kosningum. Mæti dómarar ekki til dómnefndarstarfa missa þeir sæti sitt á meðan sá hluti dómnefndarstarfa á sér stað. Dómurum er ekki heimilt að senda fyrir sig staðgengil. Dómnefndarstörf fara fram með skriflegum hætti þar sem dómarar kvitta undir sín atkvæði og því er kosningin rekjanleg niður á nafn dómara. Niðurstöður verða ekki gerðar opinberar nema ástæða sé talin til þess sérstaklega að mati stjórnar ÍMARK. Ef dómnefnd er ósammála og til atkvæðagreiðslu kemur, verður hægt að sjá atkvæði hvers dómara að keppni lokinni.

Dómnefnd ræðir saman opinskátt um verkin og kemst að sameiginlegri niðurstöðu. Rökstuðningur skal fylgja öllum niðurstöðum. Ef sameiginleg niðurstaða fæst ekki verða greidd atkvæði um sigurvegara. Ef atkvæðagreiðsla gefur ekki niðurstöðu er það hlutverk formanns dómnefndar að skera úr um málin. Formaður dómnefndar ber ábyrgð á niðurstöðum og kynnir þær á verðlaunaafhendingu. 

Starfsmaður ÍMARK annast ritarastörf og skráningu á dómnefndarfundi.