Valmynd Gerast meðlimur

Lög og skilmálar

LÖG FYRIR ÍMARK, SAMTÖK ÍSLENSKS MARKAÐSFÓLKS, SAMÞYKKT Á STOFNFUNDI 14. OKTÓBER 1986 MEÐ BREYTINGUM Á AÐALFUNDI 12. APRÍL 1991 OG Á AÐALFUNDI 25. MAÍ 2001.

I. KAFLI

Um nafn, heimilsfang og tilgang
1. gr.
Heiti félagsins er Samtök íslensks markaðsfólks, skammstafað ÍMARK.
2. gr.
Heimilisfang og varnarþing ÍMARK er í Reykjavík.
3. gr.
ÍMARK er félagsskapur einstaklinga sem hafa áhuga á markaðsfræðum og/eða starfa við markaðsmál.
4 gr.
Tilgangur ÍMARK er eftirfarandi:
1. Auka veg og virðingu markaðsmála á Íslandi og stuðla að auknum skilningi á mikilvægi þeirra.
2. Annast almenna kynningarstarfsemi á markaðsstörfum sem atvinnugrein.
3. Koma fram fyrir hönd félaga sinna gagnvart opinberum aðilum, hagsmunasamtökum og hliðstæðum samtökum erlendis.
4. Sjá um fræðslu í markaðsmálum fyrir félaga ÍMARK og gefa markaðsfólki tækifæri til að hittast og ræða um starfssvið sitt.
5. Vinna að aðstoðar- og leiðbeininarstarfi fyrir ungt fólk sem leitar sér menntunar og/eða starfsþjálfunar á sviði sölutækni, útflutnings- og markaðsmála.
6. Vinna að viðurkenningu atvinnulífsins og hins opinbera á starfi markaðsfólks.

II. KAFLI

Um aðild, árgjald og inngöngu
5. gr.
Félagar í ÍMARK geta þeir einstaklingar orðið sem viðurkenna lög og samþykktir félagsins. 
6. gr.
Stjórn ÍMARK gerir tillögur um árgjald félaga og tillag fyrirtækja og leggur þær fyrir aðalfund til samþykktar.
7. gr.
Einstaklingar sem óska eftir inngöngu í ÍMARK skulu senda umsókn þar að lútandi til framkvæmdastjóra ÍMARK.
Stjórn og framkvæmdastjóra er einnig heimilt að leita til fyrirtækja um tillag til ÍMARK og starfsemi félagsins, t.d. leiðbeininga- og fræðslustarfs, sbr. 4. gr.
8. gr.
Þegar samþykktur félagi hefur greitt árgjald telst hann hafa löglega aðild og skal nafn hans skráð í félagaskrá.

III. KAFLI

Um félagsfundi og atkvæðisrétt
9. gr.
Aðalfund skal halda í maímánuði ár hvert.
Til aðalfundar skal stjórnin auglýsa með minnst tveggja vikna fyrirvara. Telst aðalfundur löglegur sé rétt til hans boðað.
Aðalfundur er æðsta vald í öllum málefnum ÍMARK innan þeirra marka sem lögin setja.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:
a) Stjórn ÍMARK skýrir frá störfum sínum á síðastliðnu starfsári.
b) Skýrsla framkvæmdastjóra um fjárreiður ÍMARK. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar ÍMARK til samþykktar.
c) Lagabreytingar.
d) Kjör stjórnar,
    1. Formanns til tveggja ára.
    2. Sex meðstjórnenda.
    3. Framboði til stjórnar þarf að skila inn að minnsta kosti 3 dögum fyrir aðalfund.
e) Kjör endurskoðenda
    1. Félagskjörins endurskoðanda.
    2. Löggilts endurskoðanda.
f) Ákvörðun árgjalda.
g) Önnur mál.
Sami einstaklingur getur ekki setið í stjórn lengur sem meðstjórnandi en sex ár samfellt. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa aðeins þeir félagar sem skuldlausir eru við ÍMARK.
Á aðalfundi þann 20.maí 2015 var eftirfarandi lagabreyting samþykkt:
* Að framboði til stjórnar þurfi að skila inn amk 3 dögum fyrir aðalfund. 
10. gr.
Starfsár ÍMARK telst vera tímabilið milli árlegra aðalfunda. Reikningsár félagsins er 1. maí til 30. apríl. Félagsfundi skal halda þegar stjórnin ákveður og skal til þeirra boðað skriflega með bréf- eða tölvupósti.
Halda skal fundargerðarbækur um félagsfundi annars vegar og aðalfundi hins vegar.
11. gr.
Stjórn ÍMARK skiptir með sér verkum og stýrir málefnum félagsins milli aðalfunda. Það sem gerist á stjórnarfundum skal bóka í sérstaka fundargerðarbók.Störf stjórnarmanna eru ólaunuð.
12. gr.
Stjórn ÍMARK setur reglugerðir um nánari túlkun laganna eftir því sem við á og skulu reglugerðir öðlast gildi að fengnu samþykki félagsfundar.
13. gr.
Tillögur um breytingar á lögum ÍMARK skulu sendar stjórninni fyrir apríllok ár hvert. Skal stjórn ÍMARK senda félögum til kynningar allar tillögur að lagabreytingum með aðalfunarboði. Lagabreytingar þurfa samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmana.
14. gr.
Um slit félagsins gilda reglur skv. landslögum.