Valmynd Gerast meðlimur

Fólk í bransanum - viðtal mánaðarins

Venjulegur dagur í vinnunni er ekki til!

Hvert er hlutverk þitt hjá Silent og hvernig er svona “venjulegur dagur” í vinnunni?
„Venjulegur dagur í vinnunni hjá mér er í rauninni bara ekki til, þeir eru ansi fjölbreyttir og skemmtilegir, eiginlega bara eins fjölbreyttir og verkefnin sem við erum að fást við alla daga. Mitt hlutverk er fyrst og fremst að þjónusta okkar viðskiptavini með hugmyndavinnu og verkefnastjórnun, auk markaðssetningar á Silent til mögulegra framtíðar viðskiptavina.“

Nú starfar þú með markaðsstjórum hinna ýmsu fyrirtækja, telur þú að starf markaðsstjórans hafi breyst mikið á undanförnum, t.d. 3-5 árum? Og þá hvernig?
„Það er alveg óhætt að segja að landslag og markaðsumhverfi markaðsstjóra hefur tekið miklum breytingum já. Ég myndi teygja mig út fyrir 3-5 ára rammann og segja frekar síðustu 10 árin vegna þess að þá fóru stjórnendur að átta sig á því að hefðbundnir miðlar eins og prent, sjónvarp, útvarp og net voru ekki lengur einu miðlarnir sem hægt var að eiga áhrifarík markaðssamskipti með. Samfélagsmiðlarnir komu með nýja vídd þar sem að auglýsendur voru ekki lengur að tala við fjöldann heldur var fjöldanum rétt sterkt tól til að taka þátt í þeim samræðum. Ekki bara aftur til auglýsandans heldur líka til annarra neytenda, hvort sem það var af góðu eða slæmu. Hefðbundnar auglýsingar voru síðan ekkert endilega besta efnið til að setja á samfélagsmiðlana því notendur voru ekkert endilega að bregðast við þeim eða tengjast auglýsingunum og því fór hin svokallaða efnismarkaðssetning að riðja sér til rúms sem einmitt er gerð til að tengja notendur sterkari böndum við vörumerki og fyrirtæki. Í seinni tíð höfum við séð þessa þróun halda áfram á Instagram, Snapchat og notkun á áhrifavöldum.“

Eins fram hefur komið þá hafa áherslur í markaðsstarfi breyst töluvert á undanförnum árum með t.d. meiri tækni og tilkomu samfélagsmiðla, hefur þetta haft áhrif og eða krafist einhverra breytinga í starfsemi Silent? Ef svo, hvernig þá?
„Eins og ég kem inn á í síðustu spurningu þá hafa samfélagsmiðlarnir fært nýjar leiðir til markaðssetningar og markaðsstjórar geta nú sem aldrei fyrr átt beinskeyttari markaðssamskipti við betur skilgreindan markhóp og séð umsvifalaus viðbrögð við markaðsstarfi sínu. Þetta er hægt t.d. með faglegri markaðsmiðun, eða targeting, á samfélagsmiðlum á borð við Facebook.“

Með tilkomu breytinga á áherslum í markaðsstarfi, telur þú að markaðsstjórar hafi meiri eða minni stjórn á vörumerki sínu en áður?
„Markaðsstjórar hafa nú lent í ýmsum ævintýrum með tilkomu samfélagsmiðla, en aftur á móti að þá hafa markaðsstjórar orðið sterkari siðustu ár og hafa brugðist nokkuð fljótt við þegar breytingarnar dundu yfir með komu samfélagsmiðla. En hvort þeir hafi meiri eða minni stjórn er erfitt að segja til um. Sumir hafa öðlast meiri stjórn vegna getu til að móta og miða markaðsskilaboð sín betur á afmarkaðri markhópa, á meðan aðrir hafa einmitt misst valdið á umræðunni sem getur átt sér stað um vörumerkið.“

Hvað telur þú að sé mikilvægast í uppbyggingu og/eða eflingu vörumerkis?
„Faglega stefnu í markaðsstarfi fyrirtækja. Markaðsstjórar verða að hafa skýra sýn á það fyrir hvað vörumerki þeirra stendur og á að standa fyrir, bæði í nútíð og framtíð. „Consistency“ eða samræmi er líka mjög mikilvægt, þ.e. að ásýnd og upplifun neytenda á vörumerkjum sé stöðluð hvar sem þeir komast í snertingu við vörumerkið. Við eigum að upplifa vörumerkin með sama hætti í gegnum markaðsskilaboð í miðlum, þegar við kaupum vöruna í verslun eða þjónustuna á staðnum og einnig þegar við notum vöruna eða þjónustuna. Ef við upplifum ekki samræmda ásýnd vörumerkis þá gerir það vörumerkjauppbyggingu erfitt “

Skiptir tryggð viðskiptavina máli?
„Auðvitað skiptir tryggð viðskiptavina máli, alla vega í 99% tilfella þar sem að neytendur eiga kost á því að geta keypt vöru eða þjónustu aftur og aftur. Kostnaður við að leita uppi nýja og nýja viðskiptavini er ekki bara mikill heldur hlýtur það að vera mjög þreytandi til lengdar. En ég vil líka líta á hina hliðina á tryggð og hún snýr að tryggð auglýsenda og hvernig framleiðendur eða t.d. auglýsingastofur þurfa að vera „proactive“ til að sýna tryggð við viðskiptavini sína. Markaðsstjóri á að fá hugmyndir og lausnir frá framleiðslufyrirtækjum eða auglýsingastofu, það sýnir tryggð.“

Virka sömu áherslur í markaðssetningu á Íslandi eins og á stærri mörkuðum? Eða geta markaðsstjórar á Íslandi stytt sér leið á einhvern hátt?
„Markaðir eru fjölbreyttir, hver með sína kosti og galla. Það er alltaf talað um að íslenski markaðurinn sé einstakur og ég held að það sé alveg óhætt að segja að svo sé þegar kemur að markaðssetningu. Hér er smæðin stór þáttur. Við erum með styttri boðleiðir, sterkari miðla, þjappaðra dreifinet og svo framvegis. Hér geta markaðsstjórar komið vöru í sölu nánast á öllum markaðssvæðum á tiltölulega skömmum tíma og látið nánast alla landsmenn vita af því með tiltölulega hagkvæmum hætti. Þetta er ekki eins auðsótt á stærri mörkuðum, það segir sig sjálft.“

Hvar telur þú að markaðsmálin ættu að vera staðsett innan fyrirtækja, þ.e. í skipuritinu?
„Það fer algerlega eftir eðli fyrirtækja. Ef að fyrirtæki eru með mörg svið, t.d. einstaklingssvið, fyrirtækjasvið eða stórnotendasvið þá þarf markaðsdeildin helst að vera stoðeining sem vinnur þvert með öllum sviðum. Í smærri fyrirtækjum á hún að vera mjög tengd öllum öðrum deildum, þ.e. hún þarf að vera í nánu samstarfi við framleiðsluna, dreifinguna, fjármálin og svo framvegis.“

Hverjar telur þú að verði mestu áskoranir fyrir markaðsstjóra á næstu árum?
„Ég held að helstu áskoranir hljóta að vera að reiða sig ekki um of á eitt frekar en eitthvað annað. Stjórnun markaðsstarfs snýst um að nýta allar mögulegar leiðir til markaðssetningar og kunna á kosti hverrar samskiptaleiðar og vara sig á göllum þeirra á sama tíma. Ekki reiða sig of mikið á hefðbundna markaðsstarfið, né heldur að halda að samfélagsmiðlarnir leysi öll heimsins mál. Samspil allra miðla er gríðarlega mikilvægt og þess vegna skiptir yfirsýn og þekking lykilhlutverki.“